Rannsóknasetur skapandi greina á heima á Bifröst

Við háskólann á Bifröst er hefð og hugur fyrir frumkvöðla starfi. Það var því kærkominn áfangi í frekari þróun náms og fræðastarfs í þágu nýsköpunar og skapandi atvinnugreina, sú ákvörðun ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur að rannsóknasetur skapandi greina skuli byggjast upp á Bifröst.

Nú hefur verið undirritað samkomulag við Háskólann á Bifröst um stofnun Rannsóknaseturs skapandi greina sem verður starfrækt á Bifröst. Staðsetning setursins á Bifröst er rökrétt framhald á stefnu skólans, þori og framsýni en þar var nýverið sett á laggirnar námsbraut fyrir skapandi greinar á grunnstigi. Náminu er ætlað að veita þekkingu og hæfni til starfa í greinum sem að eru í senn vaxandi og fjölbreyttar en skapandi lausnir verða sífellt mikilvægari eftir því sem framvindur og viðfangsefnin verða stærri og flóknari. Þetta er í anda hinnar aldargömlu sögu skólasetursins á Bifröst í Borgarfirði og endurspeglast í farsælli sögu samvinnuskólans á Bifröst sem spilaði stórt hlutverk í aukinni menntun landsmanna á tímum mikilla samfélagsbreytinga. Háskólinn á Bifröst hefur sinnt því hlutverki af miklum hug um langt skeið og oftar en ekki þurft að heyja harða varnarbaráttu til að halda stöðu sinni. Sú barátta hefur mótað þann sóknarhug sem einkennir skólann.

Ég hef í störfum mínum á pólitískum vettvangi verið talsmaður uppbyggingar rannsóknastarfs háskóla á landsbyggðinni og talað fyrir aðgerðum sem að styrkja starf þeirra. Það er hlutverk okkar að tryggja háskólunum á landsbyggðinni tækifæri til að vaxa og dafna. Það er allra hagur að þar sé fjölbreytt nám sem að þjónar síbreytilegum þörfum og þróun samfélagsins.

Fjölbreytt námsval um allt land er mikilvægt fyrir byggðaþróun og byggðafestu. Í því felst að fleiri nemendur úr fleiri áttum sækja háskólanám á landsbyggðinni með tilheyrandi jákvæðum áhrifum á nærumhverfið. Rannsóknir á sviði menningar- og hugverkagreina eiga eftir að auka enn á þau áhrif. Á landsbyggðinni er frjór jarðvegur fyrir skapandi lausnir og er það mín trú að með fræðilegum og hagnýtum rannsóknum muni fara hönd í hönd staðbundin þekking og nýjar lausnir.

Ég óska háskólanum á Bifröst til hamingju með Rannsóknarsetur skapandi greina. Framtíðin er björt.

Bjarni Jónsson

Höfundur er oddviti vinstri grænna í NV kjördæmi