Matvælaeyðimörk í matarkistu

Það er fátt sem bindur betur saman mannfólkið en að deila brauði með náunganum. „Gjörið svo vel“ eru ein af fallegri orðum íslensks máls ásamt því að þau opna á hlýju og náungakærleik í mannlegum samskiptum. Öll verðum við að borða til að lifa og öll eigum við að hafa gott aðgengi að matvælum.

Aðgengi að heilnæmri fæðu er ekki sjálfgefið þegar við horfum til heimsins alls. Milljónir manna búa við ótryggt fæðuöryggi. Hér í okkar eigin samfélagi er mismununin aðallega fólgin í aðgengi að heilnæmum matvælum á viðráðanlegu verði. Öll eigum við að hafa þess kost að geta nálgast heilnæm matvæli við hæfi. Búseta ætti ekki heldur að hafa áhrif á þann kostnað sem við stöndum frammi fyrir við matarinnkaup.

Það er af sem áður var, í samfélagi nútímans fara fæstir og veiða í soðið, fáir eru með heimiliskú og kindur eða nokkrar hænur. Nútíma kröfur eru fjölbreytni afurða til að mæta litríkari þjóðfélagsmenningu en áður. Oft er talað um að neytendur hafi mikið vald til þess að hafa áhrif, að með því að kaupa vörur og þjónustu að þá kjósi neytendur með veskinu. Þetta er að sumu leyti rétt en engu að síður þá er staðreyndin sú að verslunin hefur allt vald í hendi sér um hvaða valkostir eru í boði og gæði þeirra. Þarna teljum við að þurfi að gera betur.AUGLÝSING

Vatnið er sótt yfir lækinn á landsbyggðinni

Landsvæði sem búa við fákeppni verslana greiða hærra verð fyrir vöruna en sá sem býr á svæði sem samkeppni ríkir á. Fyrir okkur sem kjósum að búa á landsbyggðinni er vatnið of oft sótt yfir lækinn. Það að kjósa sér búsetu í dreifðari byggðum landsins á ekki að þýða að þú greiðir hærra verð fyrir matvæli. Nýjustu gögn Hagstofu Íslands um neysluútgjöld benda til þess að útgjöld til matarinnkaupa séu stærri hluti af ráðstöfunartekjum hjá fólki í dreifbýli en á höfuðborgarsvæðinu.

Matvælaframleiðsla Íslendinga fer að stærstum hluta fram á landsbyggðinni. Þar er stutt á miðin og út á tún og í dag hefur matvælaframleiðsla þróast og orðið fjölbreyttari. Nýir framleiðendur hafa unnið markvert starf í því erfiða verslunarumhverfi sem við búum við.

Hvergi ætti að vera einfaldara að nálgast heilnæmar afurðir (lítið unnar og framleiddar á sem heilnæmastan hátt) á sem hagkvæmustu verði heldur en á landsbyggðinni. Þar sem ekki þarf að flytja vörur um langan veg. Þetta er þó víða ekki staðan og þessu þarf að breyta.

Matvæli úr heimabyggð ættu að vera meira sjáanleg í verslunum. Víða um land skortir verulega á að vörur framleiddar í heimabyggð fáist í verslunum. Sömu sögu er að segja hvað varðar vörur frá svæðisbundnum smáframleiðendum. Þetta er verulegur ágalli og sýnir vald verslunarinnar yfir því hvaða val neytendur hafa. Það er einfaldlega aðgangshindrun að verslanir sýni því ekki meiri metnað að kynna vörur sem framleiddar eru í heimabyggð í verslunum á hverju svæði fyrir sig. En einnig er það óréttlátt að smærri verslanir fá mun verri kjör hjá birgjum, sem svo neytendur greiða í formi hærra vöruverðs. Sums staðar þarf að keyra um langan veg til að komast yfirhöfuð í verslun. Á smáum stöðum berjast verslanir í bökkum við rekstur sinn, verslanir sem oft á tíðum sjá fyrir störfum í heimabyggð.

Er lengra á Blönduós en Akureyrar, frá Reykjavík?

Því er stundum fleygt fram að Húnavatnssýslurnar séu langar, en það virðist vera tilfellið að þær séu svo langar að það sé lengra til Blönduóss frá Reykjavík heldur en til Akureyrar sömu leið. Þannig sé það dýrara að flytja vöru á Blönduós heldur en til Akureyrar jafnvel þó að varan sé flutt með sama flutningabíl.

Þessum kostnaði er svo velt út í verðlag verslunarinnar á svæðinu og íbúarnir látnir greiða hann niður. Markvissari stefnu um jöfnun á flutningskostnaði matvæla og almennra nauðsynja í hinum dreifðu byggðum er nauðsynleg til þess að það sé hægt að tala um raunverulegt jafnrétti til búsetu. Því þarf að stórauka framlög til svæðisbundinnar flutningsjöfnunar. Þannig væri aðstaða kaupmannsins í smáplássinu jöfnuð til móts við verslanakeðjunnar sem er í kauphöllinni. Með því væri réttlátari verðlagning – svo að neytendur á landsbyggðinni þurfi ekki að greiða hærra verð fyrir sömu vöru.