Sigríður Gísladóttir

Dýralæknir, 2.-4. sæti

Ég er 39 ára Ísfirðingur, fædd hér og uppalin, með rætur í átthaga forfeðra minna á Ströndum, Súgandafirði og Bolungarvík. Í æsku og á unglingsárum kynntist ég sveitastörfum á Barðaströnd og í Svínavatnshreppi og hef ég enn ekki jafnað mig á sveitabakteríunni.

Ég varð stúdent frá Ísafirði, búfræðingur frá Hvanneyri og flutti svo til Noregs að læra dýralækningar. Ég hef á undanförnum árum unnið mest við heilbrigðismál í fiskeldi og 2014 flutti ég aftur til Ísafjarðar og tók þá starf mitt hjá Matvælastofnun með mér. Á þessum árum kynntist ég heimi nýsköpunar og frumkvöðlastarfs nokkuð náið í gegnum fóðurskordýraverkefnið Víur. Ég er gift og á tvo litla drengi á leikskólaaldri.

Þegar kemur að upptalningu á þeim málum sem skipta mig mestu endurspegla þau vissulega lífsreynslu mína og samferðafólks míns, áhugamál og þekkingu. Í Norðvesturkjördæmi eru margar stórar áskoranir og þær eru ólíkar eftir svæðum. Allt frá brothættum byggðum til nágranna höfuðborgarinnar er það þó velferð fólks frá vöggu til grafar sem skiptir okkur öll höfuðmáli og þar finnst mér gildi og stefna vinstri grænna ná að tryggja það best.

Ég vil sjá öflugra íbúalýðræði í takt við stækkandi sveitarfélög og meiri samvinnu milli byggðakjarna kjördæmisins. Landbúnaðarhéruð þurfa að fá að dafna með sjálfbærum og umhverfisvænum hætti í breyttum heimi þar sem vönduð framleiðsla og nýsköpun trompar magn. Með vaxandi fiskeldi og fjölgandi störfum í nýrri atvinnugrein ríður á að halda vörð um réttindi íbúa til þátttöku í ákvörðunum og gæta réttinda verkafólks í atvinnugrein sem geta fylgt vaxtaverkir.

Vinstri græn hafa sýnt það í verki hvernig eigi að efla og vekja athygli á náttúruvernd í kjördæminu með uppbyggingu þjóðgarða og friðlýstra svæða og þar verðum við að halda á spöðunum áfram.

Grein sem birtist í Bændablaðinu: http://www.bb.is/2021/04/hinir-raunverulegu-ahrifavaldar/

Grein sem birtist í Skessuhorni: https://skessuhorn.is/adsendar-greinar/framtid-nordvesturkjordaemis/

Aðrir frambjóðendur