9. sæti

Dagrún Ósk Jónsdóttir

Aldur og fyrri störf

Ég er 27 ára gömul og er núna í doktorsnámi í þjóðfræði að rannsaka birtingarmynd kvenna í íslenskum þjóðsögum. Ég kenni svo einn kúrs í háskólanum samhliða því. Ég sé líka um Náttúrubarnaskólann á Ströndum á sumrin, þar læra börn um náttúruna úti í náttúrunni, fugla, plöntur, fjöruna og hafið. Mér finnst skemmtilegt að vinna ólík og fjölbreytt verkefni og hef í gegnum tíðina unnið allskonar störf sem öll hafa kennt mér eitthvað. Ég byrjaði ung að vinna í unglingavinnunni í Strandabyggð og síðan sjoppunni og rækjuvinnslunni á Hólmavík og hef síðan ég byrjaði í náminu unnið margvísleg störf í ferðaþjónustu, safnaheiminum og við miðlun menningararfsins.

Af hverju VG

Stefna VG í umhverfismálum er líklega stærsta ástæðan fyrir því að ég valdi VG til að byrja með. Ég byrjaði svo að taka þátt af einhverju ráði vegna öflugs ungliðastarfs. Ég sat í stjórn Ungra vinstri grænna í tvö ár og finnst gríðarlega mikilvægt að hlustað sé á ungt fólk í stjórnmálum og þau alltaf höfð með í ráðum. Stefnan, baráttumálin og fólkið er svo ástæðan fyrir því að ég held áfram að vera í VG

Þrjú helstu baráttumál

Umhverfismálin eru auðvitað mikilvægasta mál okkar tíma og ný loftslagsskýrsla er vægast sagt mjög ógnvekjandi. Sjálfbærni og náttúruvernd þurfa að vera lykilhugtök framtíðarinnar og það verður að bregðast við loftslagsvandanum af fullum þunga.
Byggðamál eru annað stórt og mikilvægt mál, en það er auðvitað sambland af ótal ólíkum málum eins og samgöngu-, fjarskipta-, mennta-, atvinnu- og heilbrigðismálum sem verður að efla á landsbyggðinni, allt atriði sem skipta máli þegar fólk tekur ákvörðun um hvar það vill búa og lifa lífinu.
Jafnréttismál eru mér líka mjög hugleikin, en eins og við höfum verið minnt á í þriðju bylgju metoo er ennþá langt í land. Barátta gegn hverskonar fordómum og hatursorðræðu er gríðarlega mikilvæg og nauðsynlegt að við öll tökum skýra afstöðu gegn slíku.

Aðrir frambjóðendur