Bjarni Jónsson

Fiskifræðingur og sveitarstjórnarfulltrúi, 1. sæti

Ég ólst upp á sauðfjárbúi í Bjarnarhöfn á Snæfellsnesi til 15 ára aldurs er fjölskyldan fluttist heim að Hólum í Hjaltadal. Foreldrar mínir eru þau Ingibjörg Sólveig Kolka frá Blönduósi og Jón Bjarnason frá Asparvík á Ströndum. Ég á fimm systkini. Eiginkona mín er Izati Zahra og á ég tvö börn.

Ég lauk stúdentsprófi frá Fjölbrautaskólanum á Sauðárkróki, prófi í hagsögu frá Háskóla Íslands og fiskifræði frá ríkisháskólanum í Oregon í Bandaríkjunum. Þá hef ég lagt stund á leiðtoga, og stjórnunarfræði við Háskólann á Bifröst samhliða öðrum störfum. Var lengi deildarstjóri Norðurlandsdeildar Veiðimálastofnunar, kenndi við Háskólann á Hólum, en starfa nú sem forstöðumaður Náttúrustofu Norðurlands vestra.

Ég er náttúrubarn – ólst upp við sjósókn með afa mínum og skepnuhirðingu í Bjarnarhöfn og fyrstu árin höfðu mikil áhrif á mig. Eftir að ég kom norður fékk ég sumarstarf hjá útibúi Veiðamálastofnunar á Hólum – og örlög mín voru ráðin. Ég hef frá þessum tíma helgað mig rannsóknum og ráðgjöf við sjálfbæra nýtingu ferskvatnsfiska og sjávarauðlinda.

Ég fór snemma að taka þátt í þjóðfélagsmálum. Ég brenn fyrir grunngildum Vinstrihreyfingar græns framboðs – um náttúruvernd, jöfnuð og byggðajafnrétti, Ég er keppnismaður að eðlisfari og vil sjá umbætur og breytingar. Mín áherslumál í sveitarstjórn og á vettvangi landsmálanna hafa verið að styrkja innviði, treysta búsetu og fjölskylduvænt samfélag á landsbyggðinni.

Ég tel að ég hafi bæði erindi og afl til þess að koma þessum mikilvægu málum áfram – og bið um þinn stuðning til þess að leiða framboðslista VG í NV kjördæmi.

Aðrir frambjóðendur